Stefna Klébergsskóla

VIRÐING - SAMVINNA – METNAÐUR eru einkunnarorð skólans. Í starfi Klébergsskóla á að ríkja virðing fyrir hverjum og einum. Starfið á að einkennast af samvinnu nemenda, foreldra og starfsfólks skólans og metnaði hvers einstaklings til að gera sitt besta. Þannig eiga allir að geta notið sín, menntast og verið hamingjusamir einstaklingar.

Klébergsskóli er vinnustaður nemenda, kennara og annars starfsfólks skólans. Við berum sameiginlega ábyrgð á því að skólinn sé snyrtilegur, vistlegur og hlýlegur vinnustaður er stuðli að stöðugri viðleitni til menntunar og þroska. Ennfremur að samskipti séu byggð á gagnkvæmu trausti, virðingu og umburðarlyndi.

 • Við erum öll jafngildir einstaklingar án tillits til getu, hæfileika, kynferðis eða annars er greinir okkur að í útliti eða uppruna.
 • Við ætlum að rækja skyldur okkar hvert við annað svo við getum öll notið okkar réttinda.
 • Við viljum í sem flestu treysta góð tengsl heimila og skóla með gagnkvæmum upplýsingum og öflugu samstarfi.
 • Í starfi skólans ætlum við að leggja rækt við heimabyggð okkar og nýta vel tækni og okkar nánasta umhverfi til náms.

Meginmarkmið
Meginmarkmið skólastarfsins koma fram í 2. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008 og Aðalnámskrá grunnskóla frá 1999 og 2007. Í lögunum stendur m.a.

Hlutverk grunnskóla, í samvinnu við heimilin, er að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun. Starfshættir grunnskóla skulu mótast af umburðarlyndi og kærleika, kristinni arfleifð íslenskrar menningar, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi. Þá skal grunnskóli leitast við að haga störfum sínum í sem fyllstu samræmi við stöðu og þarfir nemenda og stuðla að alhliða þroska, velferð og menntun hvers og eins.
Grunnskóli skal stuðla að víðsýni hjá nemendum og efla færni þeirra í íslensku máli, skilning þeirra á íslensku samfélagi, sögu þess og sérkennum, högum fólks og á skyldum einstaklingsins við samfélagið, umhverfið og umheiminn. Nemendum skal veitt tækifæri til að nýta sköpunarkraft sinn og að afla sér þekkingar og leikni í stöðugri viðleitni til menntunar og þroska. Skólastarfið skal leggja grundvöll að frumkvæði og sjálfstæðri hugsun nemenda og þjálfa hæfni þeirra til samstarfs við aðra.
Grunnskóli skal stuðla að góðu samstarfi heimilis og skóla með það að markmiði að tryggja farsælt skólastarf, almenna velferð og öryggi nemenda.

Almenn markmið skólans eru:

 • Að veita nemendum góða alhliða menntun.
 • Að búa nemendur undir líf og starf í lýðræðissamfélagi.
 • Að nemendur temji sér sjálfstæð, öguð og gagnrýnin vinnubrögð.
 • Að halda góðu samstarfi á milli heimila og skóla.
 • Að styrkja sjálfsmynd og sjálfsöryggi nemenda.
 • Að efla siðgæðisþroska nemenda, umburðarlyndi og virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum.
 • Að efla vitund nemenda um mikilvægi hollrar næringar, hreyfingar og hvíldar.