Þroskaþjálfi

Þroskaþjálfi er starfandi við Klébergsskóla. Þroskaþjálfi starfar í nánu samstarfi við sérkennara og umsjónarkennara þeirra nemenda sem hann sinnir. Þroskaþjálfi sér um að gera einstaklingsáætlanir fyrir þá nemendur í samstarfi við umsjónarkennara, sérkennara og foreldra. 

Nemendaverndarráð er starfandi við skólann og er ætlað að samræma störf þeirra aðila sem fjalla um málefni einstakra nemenda. Í ráðinu eru auk skólastjóra skólahjúkrunarfræðingur, skólasálfræðingur, námsráðgjafi og sérkennari skólans.

Áfallaráð er starfandi við skólann og í því sitja skólastjóri, aðstoðarskólastjóri og tveir aðrir starfsmenn.  Áfallaráð fær ýmsa aðila innan og utan skólans til samstarfs eftir því sem þörf krefur. Þar má nefna skólasálfræðing, skólahjúkrunarfræðing, umsjónarkennara, sóknarprest og fleiri.

Áföll svo sem ástvinamissir, alvarleg veikindi, slys eða átök í fjölskyldum hafa djúpstæð áhrif á alla, ekki síst börn og unglinga. Því er afar mikilvægt að upplýsingar er kunna að snerta líðan nemenda berist skólanum. Umsjónarkennari er helsti tengiliður milli skóla og heimila og sá aðili sem mest hefur af viðkomandi nemendum að segja. Foreldrar/forráðamenn eru því hvattir til að setja sig í samband við umsjónarkennara ef erfiðleika eða sorg ber að höndum.