Skólareglur

Í Klébergsskóla er lögð áhersla á að framkoma nemenda, umgengni, ástundun og stundvísi sé góð.  Reglur skólans taka mið af þessu.  Umsjónarkennarar hvers stigs setja síðan frekari reglur um umgengni og almennsamskiptií samráði við nemendur sína og semja bekkjarreglur.  Í þeim er einnig tekið mið af þeim fjórum reglum sem farið er eftir í Olweusaráætluninni.

Nemendum er skylt að fara eftir skólareglum og hlíta fyrirmælum starfsfólks skólans, meðan þeir dvelja í skólanum, í öllu starfi á vegum skólans og í skólabifreiðum.

Komi upp vandamál vegna hegðunar og/eða ástundunar nemenda eru þau leyst í samvinnu við nemendur og foreldra/forráðamenn.

Framkoma

Nemendum ber að koma fram við skólasystkini, starfsfólk skólans og gesti, af fyllstu kurteisi og tillitssemi, jafnt í orði sem í verki.  Á sama hátt ber starfsfólki að umgangast nemendur og aðstandendur þeirra af virðingu, vinsemd og tillitssemi.

Umgengni

Öllum er ætlað að ganga kurteislega og þrifalega um skólann og muni hans. Vísvitandi skemmdir skulu bættar af viðkomandi nemanda og forráðamönnum hans.  Háreysti og hlaup á göngum eru bönnuð, einnig er notkun tyggjós og farsíma bönnuð í skóla og á skólalóð á skólatíma og snjókast á skólalóð í frímínútum nema á fyrirfram ákveðnum svæðum. Notkun I-pod spilara er leyfð í unglingadeild en þó með því skilyrði að nemendur hætti notkun við tilmæli starfsfólks. Hjólatæki eru ekki leyfð á skólalóð á skólatíma nema á sérstökum hjólatækjadögum. Ekki skal fara af skólalóð á skólatíma nema með leyfi umsjónarkennara eða skólastjórnanda.

Ástundun og stundvísi

Öllum ber að stunda nám og starf af kostgæfni.  Mæta skal stundvíslega í allar kennslustundir með þau gögn sem nota á hverju sinni.

Neysla ávana- og fíkniefna

Skólinn og skólalóðin er reyklaus vinnustaður og öll meðferð tóbaks og annarra vímuefna er bönnuð.  Það sama á við hvar sem nemendur eru á vegum skólans.