Samstarf

Samskipti heimilis og skóla eru afar mikilvæg.  Þau veita gagnkvæmar upplýsingar um líðan nemandans, framfarir, vinnu og viðfangsefni í skólanum og heima. Þetta bætir frammistöðu og sjálfstraust barnsins og eykur jákvæðni milli viðkomandi aðila.

Kennarar eru með sérstakan viðtalstíma sem þeir nýta til að hafa samband við foreldra með viðtölum á staðnum eða í síma.  Foreldrar/forráðamenn eru alltaf velkomnir í heimsókn í skólann.  Mikilvægt er þó að þeir boði komu sína fyrirfram því fjölmargt sem fram fer í skólanum er ekki auglýst sérstaklega.

 

Foreldrafélag er starfandi við skólann og eru allir foreldrar og forráðamenn nemenda Klébergsskóla félagar í foreldrafélaginu. Félagið hefur aðstöðu í skólanum til fundahalda og annarrar starfsemi. Félagið aflar fjár með innheimtu félagsgjalda. Bekkjarfulltrúar eru kosnir að hausti úr hópi foreldra í hverjum bekk. Hlutverk bekkjarfulltrúa er að stuðla að auknu samstarfi foreldra, umsjónarkennara og nemenda. Bekkjarfulltrúar eru tengiliðir foreldra við kennarann og sjá til þess að foreldrar vinni saman að því að bæta skólastarf. Fulltrúar skipta með sér verkum vegna undirbúnings þeirra atburða sem félagið stendur fyrir og virkja aðra foreldra eftir þörfum.

 

Skólafærninámskeið

Skólafærninámskeið er haldið í Klébergsskóla fyrir foreldra barna sem eru að hefja skólagöngu. Námskeiðið er samvinnuverkefni skólans og foreldrafélagsins. Markmið með námskeiðinu er að leggja grunn að góðu samstarfi heimila og skóla.

 

Kynning á vetrastarfi skólans

Í upphafi skólaárs er foreldrum nemenda í 2.-10. bekk boðið til kynningar á vetrarstarfinu þar sem farið er yfir skipulag skólastarfsins og  umsjónarkennarar kynna námsefni vetrarins.