Agakerfi og viðurlög

Lögð er áhersla á að nemendur leggi sig fram í námi og sæki kennslustundir samkvæmt stundatöflu. Komi upp vandamál vegna hegðunar og/eða ástundunar nemenda eru þau leyst í samvinnu við nemendur og foreldra/forráðamenn. Ef ekki tekst að leysa vandann þannig, leitar umsjónarkennari eftir aðstoð hjá skólastjóra/aðstoðarskólastjóra og ráðgjöfum skólans.  Ef ekki tekst að leysa vandann innan skólans er leitað annarra leiða í samvinnu við Menntasvið Reykjavíkur og Barnavernd Reykjavíkur.

 

1. – 7. bekkur

Ef nemandi í 1. – 7. bekk mætir ítrekað of seint eða er fjarverandi úr kennslustund hefur umsjónarkennari samband við foreldra/forráðamann.  Verði ekki bragarbót á skólasókn er máli nemandans vísað til nemendaverndarráðs og skólastjórnar til meðferðar.

Brjóti nemandi í 1. – 7. bekk ítrekað bekkjar- eða skólareglur er tekið á málinu samkvæmt fjögurra þrepa agakerfi skólans.

 

8. – 10. bekkur

Í 8. – 10 bekk eru gerðir námssamningar milli skólans annars vegar og nemanda og heimilis hins vegar. Tekið er á agabrotum og brotum á skólasókn í samræmi við ákvæði í samningnum.

Nemendur og foreldrar/forráðamenn fá upplýsingar um skólasókn sendar heim tvisvar sinnum í mánuði. Foreldrar/forráðamenn geta einnig fylgst með skólasókn og ástundun barna sinna í Mentor.  Í Mentor eru skráðar inn upplýsingar um skólasókn og ástundun, þar er einnig skráð í dagbók upplýsingar um einstaka hegðunarbrot nemenda.

Umsjónarkennari hefur forgöngu um lausn á vanda vegna skólasóknar, ástundunar og agabrota í samvinnu við nemanda og foreldra/forráðamenn.  Ef ekki tekst að leysa vandann er málinu vísað til nemendaverndarráðs og skólastjórnar. 

Við alvarleg agabrot eða slælega skólasókn getur þurft að vísa nemenda í 8. – 10. bekk úr skóla.   Jafnframt er málinu vísað til Barnaverndar Reykjavíkur og fræðsluyfirvalda.

Meðferð kennslubóka

Flestar kennslubækur fá nemendur að láni hjá skólanum.  Þegar þeir fá lánsbók merkja þeir hana í þar til gerðan reit.  Þar er einnig sagt til um ástand bókarinnar við móttöku.  Það ætti að vera metnaðarmál hvers nemanda að skila bókum í sem bestu ástandi.  Ef nemandi eyðileggur, týnir eða skemmir bók, hljóðbók eða hljóðdisk ber honum að greiða hana að fullu.

Öryggisatriði

Meðferð hnífa eða annarra eggvopna er með öllu óheimil í skólanum. Sama gildir um eldfæri og önnur skaðleg efni og áhöld.

Farsímar og annar búnaður

Leyfilegt er að hafa síma uppi við í skólanum til að nota tónlist úr honum eða nota forrit úr honum á skólatíma ef kennari leyfir, ef það truflar ekki kennslustundir. Ekki er leyfilegt að hringja úr farsímum í skólanum hvort sem er í tímum eða úti á skólalóð nema um neyðartilvik sé að ræða. Ekki er leyfilegt að taka myndir úr símum á skólatíma. Stranglega bannað er að hafa myndavélasíma með sér inn í búningsklefa í íþróttahúsi og varðar það við lög sé hann notaður þar. Hafi nemendur eitthvað  af þessum búnaði með sér í skólann, taka þeir sjálfir ábyrgð á honum og sjá um að á honum sé slökkt.

Reiðhjól, hjólabretti, línuskautar o.fl.

Hjólatæki eru leyfð innan malbikaða vallar á skólalóðinni á skólatíma. Mikilvægt er að nemendur komi þá með öryggisbúnað eins og hjálm. Þeir sem koma á reiðhjólum í skólann skulu leggja þeim við hjólagrindurnar. Skólinn ber enga ábyrgð á hjólunum og er notkun þeirra alfarið á ábyrgð nemenda og foreldra þeirra.