Um leikskólann
Berg
Leikskólinn Berg er starfræktur á Kjalarnesi við Kollagrund 6, undir hatti sameinaðrar stofnunar að nafni Kléberg. Hann er staðsettur rétt neðan við íþróttamiðstöðina og skólann, steinsnar frá fjörunni í Hofsvík og náttúran með öllum sínum hæðum og lægðum allt um kring. Hann er lítill og heimilislegur, þar er mikil fjallasýn og fjölskrúðugt fuglalíf. Í samræmi við það er lögð áhersla á umhverfismennt og útinám, ásamt auðugu málumhverfi. Út frá staðsetningu og upplifun á umhverfinu leggjum við áherslu á að endurspegla kyrrðina og notalegheitin sem eru allt um kring. Við viljum hafa rólegt og heimilislegt andrúmsloft, þannig að öllum finnist notalegt að koma til okkar, hvort sem er í lengri eða skemmri tíma.
Á Bergi er stór hópur af ungum vísindamönnum á aldrinum eins til sex ára. Helstu einkenni hópsins eru lífsgleði, forvitni og áhugi. Við erum einnig með glæsilegan starfsmannahóp sem heldur vel utan um allan leikskólann. Við erum mjög stolt af starfinu okkar, öllum leikskólanum og því umhverfi sem við erum í.
Leiðarljósin okkar eru; leikur – samvinna – virðing, þau eiga að einkenna allt okkar starf.
Á Bergi eru tvær deildir sem heita Dvergasteinn (1-3 ára) og Álfasteinn (3-6 ára).
Leikskólinn Berg
- Kollagrund 6, 116 Reykjavík
- Sími: 4117171
- Netfang: berg@rvkskolar.is
Sigrún Anna Ólafsdóttir er skólastjóri og Kristín Sigríður Evertsdóttir aðstoðarleikskólastjóri
SÉRSTAÐA LEIKSKÓLANS
Berg er staðsett rétt ofan við sjávarmál, steinsnar frá fjörunni í Hofsvík á Kjalarnesi.
Berg er umhverfisvænn leikskóli og öll byggingin tekur mið af því. Hann er einnig grænfánaskóli og leggur mikið upp úr heilsueflingu og náttúruvernd.