Skip to content

Keppendur Klébergsskóla í STÍL

Í haust gafst nemendum á unglingastigi kostur á að velja valgrein sem kallast STÍLL. Markmiðið var að senda hóp frá Klébergsskóla til þess að taka þátt í STÍL sem er árleg hönnunarkeppni á vegum Samfés en þemað í ár er Gylltur Glamúr. Valáfanginn var byggður upp á þann hátt að allir þátttakendur í valinu fengu sína eigin hönnunarmöppu. Allir fengu síðan góðan tíma til þess að hanna sínar eigin tillögur og að lokum kusu krakkarnir sín á milli um þá hönnun sem þeim leist best á og langaði til þess að þróa áfram fyrir lokakeppnina.

Nemendur í valáfanganum STÍLL, hafa lagt mikið á sig upp á síðkastið til þess að ná að klára sitt framlag til keppninnar. Á myndunum má til dæmis sjá metnaðarfulla krakkana sitja eftir skóla við loka frágang fyrir helgina og þau fengu meira að segja aðstoð frá einum nemanda sem var ekki þátttakandi í valáfanganum. Næstkomandi laugardag, 21. janúar, er síðan komið að lokakeppninni sjálfri sem í ár verður haldin í íþróttahúsinu í Digranesi frá kl. 15-17. Keppnin er öllum opin, það er ókeypis aðgangur og hvetjum við alla sem hafa áhuga, að koma og fylgjast með. Það verður aldeilis gaman að sjá afrakstur haustsins þegar fulltrúar okkar stiga á svið á laugardaginn og það væri nú ekki leiðinlegt fyrir þau að finna fyrir stuðningi úr salnum.