Skip to content

Handritin til barnanna

Nemendur miðstigs Klébergsskóla fengu áhugaverða heimsókn í gær, heimsókn frá fræðurum á vegum verkefnisins Handritin til barnanna. Árnastofnun gengst fyrir verkefninu í tilefni af því að í vor verða 50 ár liðin frá heimkomu handritanna, sum hver allt að 800 ára gömul og geyma lög og sögu Íslendinga . Fræðararnir voru þeir Snorri Másson BA í íslensku og Jakob Birgisson skemmtikraftur og fræddu þeir krakkana á miðstigi um mikilvægi handritanna fyrir íslenskan þjóðararf. Þeir sýndu með leikrænum tilburðum brot úr sumum þekktustu sögunum, sem sýndi fram á hvað íslenskan hefur haldið sér í gegnum aldirnar, þannig að enn þann dag í dag skiljum við stærstan hluta þeirra skrifa sem þá voru rituð fyrir svo mörgum öldum síðan. Þeir tóku með sér eftirlíkingu af Flateyjarbók í allri sinni dýrð ásamt litlu riti sem er eftirlíking af Konungsbók Eddukvæða. Svo var ein kista með í vör lík þeirri sem skrifarar höfðu með í för, þegar ekki fékkst leyfi til að kaupa til baka handrit í eigu einstaklinga en skrifarar voru ráðnir til að skrifa upp nýtt eftir frumritinu.