Skip to content

Hinn hefðbundni íslenski jólamatur

Á hverju ári býður Klébergsskóli nemendum í jólamat í desember. Í ár á föstudaginn var. Byrjað var á að horfa á leikrit 5. bekkjar  sem lék 10. bekkinn eins og hefð er fyrir í Klébergsskóla. Nemendur 10. bekkjar gátu séð ýmislegt spaugilegt við sjálfa sig og bekkjarfélaga sína þegar aðrir tóku sig til og sýndu þeim þeirra eigin tjáskipti og hegðun. Ekki var hægt að hafa alla í einni kös sökum samkomutakmarkana svo yngsta stigið stóð í ,,brúnni“,  sem hefur oft þótt eftirsóknarvert, eins og sannir íslenskir skipstjórar og fylgdust með þaðan og fóru svo inn á yngsta stig þar sem þeim var þjónað til borðs.

Aðrir starfsmenn þjónuðu nemendum til borðs í prúðbúnum matsalnum og nemendur nutu samfélagsins hver við annan.

Sigrún nemandi í 7. bekk spilaði svo nokkur lög, sem má segja að hafi verið hennar fyrsta ,,GIG“ í skólanum, þ.e. að spila ,,dinner-tónlist“, en hún er einmitt búin að vera mjög iðin að æfa sig enda sýndi útkoman það. Glæsilegt hjá henni.