Skip to content

Dagur íslenskrar tungu – „Viltu tala íslensku við mig?“

„Viltu tala íslensku við mig?“ er samstillt átak Íslenskuþorpsins, grunnskólanna í Grafarvogi og á Kjalarnesi í íslensku sem öðru máli. Skólarnir halda daginn hátíðlegan með því að vekja athygli á mikilvægi samskipta á íslensku sérstaklega fyrir þá sem eru að læra íslensku.  Í myndbandi til stuðnings átakinu hvetja nemendur og þjóðþekktir einstaklingar til samskipta á íslensku með slagorðinu „Viltu tala íslensku við mig?“

Komið er á fót Íslenskuþorpi, sem er stuðningsnet fyrir nemendur með íslensku sem annað mál, innan skólanna og í nágrenni þeirra þar sem velviljaðir einstaklingar taka á móti nemendum og tala íslensku. Nemendur læra ákveðnar aðferðir við að læra tungumálið í raunverulegum aðstæðum þar sem megináhersla er lögð á hæfnina til að eiga árangursrík samskipti í skólanum og úti í samfélaginu.  Þessar aðferðir miða einnig að því að gera nemandann sjálfstæðan í náminu og höfða til áhugasviðs hans. Þannig er íslenskunámið gert merkingarbært, hagnýtt og skemmtilegt.  Aðferðin miðar að því að styrkja félagsfærni og efla sjálfstraust nemenda í skólasamfélaginu. Starfsfólk skólanna fær fræðslu um fjölmenningu og menningarnæmi svo styðja megi sem best við verkefnið.