Nemendur 7. bekkjar í skólabúðum

7. bekkur hefur verið í skólabúðum í Reykjaskóla í Hrútafirði síðan á mánudag. Óhætt er að segja að þau komi heim reynslunni ríkari því þar hafa þau öðlast meira sjálfstæði, kynnst jafnöldrum og fengið mikilvæga reynslu í félagslegum samskiptum.
Þau hafa líka þurft að fara eftir reglum skólabúðanna og fylgja stundaskrá þar sem þau fara í hópatíma eins og t.d. náttúrufræði og sögu, íþróttir og sund, byggðasafn, stöðvaleik, undraheim, en einnig fengið frjálsan tíma. Á hverju kvöldi nema því síðasta hafa verið kvöldvökur þar sem þau sjálf hafa þurft að sjá um skemmtiatriðin. Síðasta daginn var haldin hin margfræga hárgreiðslukeppni drengja og svo diskó um kvöldið, þar sem dansað var af miklum móð.
Að auki voru mörg þeirra að upplifa það í fyrsta sinn að gista svona lengi annars staðar en heima hjá foreldrum sínum. Það er stórt þroskaskref í lífi margra. Kennarar segja oft að þau fari að Reykjum sem krakkar en komi til baka sem unglingar.