Ólympíuhlaup ÍSÍ í Klébergsskóla

Norræna skólahlaupið hefur farið fram í grunnskólum landsins óslitið frá árinu 1984 og lengstan hluta þess tíma verið í umsjón Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands – ÍSÍ. Á síðasta ári var nafni hlaupsins breytt í Ólympíuhlaup ÍSÍ.
Með Ólympíuhlaupi ÍSÍ er eins og áður leitast við að hvetja nemendur skólanna til þess að hreyfa sig reglulega og stuðla þannig að betri heilsu og vellíðan. Nemendur geta nú sem áður valið á milli þriggja vegalengda í hlaupinu, þ.e. 2,5 km, 5 km eða 10 km. Allir nemendur skólans taka þátt en hver og einn hleypur á sínum hraða og velur sína vegalengd. Að hlaupinu loknu fær hver þátttakandi og hver skóli viðurkenningarskjal þar sem greint er frá árangri. Það skal tekið fram að hér er fyrst og fremst lögð áhersla á holla hreyfingu og að allir taki þátt.
Ólympíuhlaupið í Klébergsskóla fór fram föstudaginn 13. september í svölu haustveðri. Hlaupið var frá skólanum í átt að Dýjahlíð. Nokkrir kappsamir einstaklingar fóru meira að segja 15 km.
Í Klébergsskóla er skólahlaupið hluti af átakinu göngum í skólann sem nú stendur sem hæst.
Við erum óskaplega stolt af hópnum okkar!