Skip to content

Umhverfismennt á Bergi

Umhverfismennt

Leikskólinn Berg er staðsettur í miðri náttúruparadís. Eitt af markmiðum okkar er  að börnin kynnist nánasta umhverfi leikskólans og náttúrunni þar um kring á sem fjölbreyttastan máta.

Umhverfismennt er hluti af því að þekkja og bera virðingu fyrir náttúrunni. Berg er Skóli á grænni grein og flaggar Grænfánanum. Við stefnum að því að Berg  verði áfram grænn og umhverfisvænn leikskóli sem hefur áhrif á nærumhverfi sitt með því að vera góð fyrirmynd, mennti börnin í umhverfismennt og reyni að virkja íbúa hverfanna (Kjalarnes og Kjós).

Eitt af aðalsmerkjum okkar á Bergi er útinámið okkar sem við köllum Fjörulalla og er eins og nafnið gefur til kynna nám sem fer fram í fjörunni og nágrenni hennar.

Útinám er það kallað þegar við færum nám og leik út fyrir veggi skólans með skipulögðum hætti. Börnin komast þannig í snertingu við umhverfið og náttúruna og fá þannig að upplifa hlutina í raunverulegum aðstæðum með öllum sínum skilningarvitum. Börnin eru að rannsaka og skoða, spyrja og spjalla, sýna og sjá.

Útinámið er skipulagt út frá áhuga og forvitni barnanna. Í fyrstu ferðum sínum skoða börnin lífríki fjörunnar og njóta útiverunnar. Fljótlega þróast þó áhugi þeirra meira yfir í náttúru- og umhverfisvernd. Börnin eru mjög meðvituð um það að þau eru í heimsókn í fjörunni og þar búi fullt af öðrum lífverum, því verði þau að ganga varlega og vel um. Þau eru þannig mjög virk í að ganga vel um bæði þannig að þau skemmi ekkert og fjarlægi það sem ekki á heima í fjörunni.

Leikskólinn Berg er formlegur félagi í Fuglavernd og erum við að fylgjast með því mikla fuglalífi sem er í kringum okkur. Við skoðum hátterni þeirra, förum varlega svo við styggjum þá ekki, göngum vel um þannig að þeim líði vel og fóðrum þá með því sem til fellur á veturna.

Við höfum einnig í samstarfi við hverfisskólana okkar verið að þróa samstarf á milli skólastiga í gegnum umhverfismennt og er það mjög skemmtilegur valkostur. Þá fléttum við saman umhverfisverndinni, útináminu og leitum að örnefnum í nánasta umhverfi til að vinna með.

Ekki má gleyma því að útiveran í garðinum okkar er stór þáttur í umhverfismenntinni, þar sem við upplifum veðráttuna í öllu sínu veldi. Veðurfar hefur mikil áhrif á okkur… hvernig er veðrið, hvernig þurfum við að vera klædd, er birta, hiti, kuldi, blautt, þurrt? Allt hefur þetta svo áhrif á frjálsa leikinn í útiverunni. Í rigningu eru sulluleikir við völd, í snjó er verið að hnoða bolta og renna sér, í sól og blíðviðri eru hlaup og ærsl allsráðandi. Þannig hefur náttúran og nánasta umhverfi áhrif á leik barna, bæði hvað varðar aðstæður og upplifanir.