Tónlistarnám
Tónlistarkennsla Tónlistarskólans á Klébergi fer fram í Klébergsskóla. Kennt er á blásturshljóðfæri, hljómborð, gítar og píanó auk kennslu í söng og raddbeitingu. Kennarar tónlistarskólans sjá einnig um tónmennt (blokkflauta í 1. bekk). Nemendur sem komnir eru í 3. bekk eða lengra hafa forgang í tónlistarnám, en ef enn er laust þegar búið er að taka þá nemendur inn, gefst yngri nemendum kostur á tónlistarnámi, en sækja þarf um það strax að hausti.
Lagt er upp með að skólahljómsveit starfi í skólanum en nemendur eiga jafnframt kost á að æfa með Skólahljómsveit Mosfellsbæjar. Skólinn hefur útvegað nemendum blásturshljóðfæri en aðrir nemendur skólans nýta eigin hljóðfæri.
Skólagjöld eru greidd tvisvar á ári fyrir haust- og vorönn. Ef fleiri en einn nemandi úr fjölskyldu vill stunda nám í tónlistarskólanum er veittur 20% afsláttur eftir þann fyrsta. Hljóðfæraleiga er innheimt ef hljóðfæri er fengið að láni hjá skólanum fyrir tónlistarnámið. Hægt er að greiða fyrir námið með frístundastyrk/frístundakortinu – frá Reykjavíkurborg, sækja þarf sérstaklega um á rafraen.reykjavik.is og eins í önnur sveitarfélög ef viðkomandi hefur lögheimili annars staðar en í Reykjavík, ef nýta á frístundastyrk sem þau veita.
Sótt er um grunnnám í gegnum rafraen.reykjavik.is(fornám er kennt í gegnum yngstu bekki grunnskólans og þarf því ekki að sækja um það).
Tónlistarskólinn á Klébergi heldur að jafnaði tvo tónfundi á ári. Þann fyrri í desember eða janúar en þann síðari í maí. Auk þess koma nemendur fram á samverum á vegum Klébergsskóla og við ýmis önnur tækifæri sem gefast.
Um tónlistarnám
- Mikilvægt er að nemendur búi við jákvætt viðhorf gagnvart tónlistarnáminu, aðstandendur þeirra sýni náminu áhuga og fylgist með framvindu þess.
- Hljóðfæranám byggir að miklu leyti á daglegri og reglubundinni þjálfun. Án markvissra æfinga (heima) verður árangurinn rýr.
- Mikilvægt er að nemendur geti æft sig þar sem þeir verða fyrir sem minnstri truflun og hafi ekki á tilfinningunni að þeir trufli aðra.
- Nauðsynlegt er að ungir nemendur fái aðstoð foreldra við að skipuleggja æfingatímann.
- Árangursríkara er að æfa sig oftar og skemur í senn en sjaldnar og lengur.
- Tónlistarnám þarf að vera ánægjulegt og ánægjan felst ekki síst í stolti yfir eigin framförum og aukinni færni.
- Eðlilegt er að áhugi nemenda sé misjafn. Ef nemandi sýnir merki um uppgjöf er mikilvægt að kennari og aðstandendur leiti orsakanna. Stundum er nóg að skipta um viðfangsefni til að áhuginn glæðist á ný.
- Hlustun er afar mikilvægur þáttur í öllu tónlistarnámi. Með því að hlusta á vel flutta tónlist fá nemendur nauðsynlegar fyrirmyndir. Aðstandendur leggja sitt af mörkum með því að hvetja nemendur til að hlusta á fjölbreytta tónlist s.s. af hljómdiskum eða á tónleikum.